Sá að hinir og þessir fagna bloggafmælum um þessar mundir, ég fór því að athuga hver væri elsta færslan sem ég á eftir mig og hún er víst dagsett 9. maí 2000. Síðan hefur margt gerst og ég hef átt 'heima' á nokkrum stöðum; tvær adressur á tripod þar sem ég notaði Blogger, síðan átti ég mitt eigið domain (ég eyddi síðan öllu sem var þar í e-u aulakasti) í smá tíma og notaði MovableType og þaðan fór ég yfir í Typepad og er þar enn.
Það er Björgvin að þakka/kenna að ég byrjaði á þessu (eins og margir aðrir), ég þakka pent fyrir mig!
Í byrjun var íslenski bloggrúnturinn ekki langur, svo kom Egill með Nagportal, síðan hélt Geir partí á Rauðarárstíg, næst bauð Bjarni rss.mola og svo e-n tímann eftir það hætti ég að fylgjast almennilega með, einhvers staðar á tímalínunni varð allt vitlaust og upp spruttu blogdrive, blog.central.is, Moggablogg o.s.frv. o.s.frv.
Það sem kannski hæst ber á mínum bloggferli er að hafa verið í viðtali á Rás 2 ásamt fleirum og talað um blogg, númer tvö verður að vera þegar ég var næstum því rekin fyrir blogg og í þriðja sæti yfir blogg-afrekaskrá mína er (smá) þátttaka í vefritinu Hrekkjusvín sem var og hét. Svo hef ég líka kynnst mörgu góðu fólki í gegnum bloggið og kynnt margt gott fólk fyrir bloggi.
Og þetta er lengsta færslan hjá mér í enn lengri tíma :)